Álöldin Þóra Fjelsted
PRENTEFNI (PDF)
Það er fátt jafn augljóst og að heimurinn sem við búum í er búinn til úr efnum. Efni eru jú undir okkur, ofan á og allt í kring - og sjálf erum við gerð úr efnum. Talað er bæði um málefni og efnahag og það er vel þegið þegar fólk kemur sér beint að efninu. Efnisnotkun hefur alla tíð haft djúp áhrif á aðstæður, samfélög og lífshætti. Heilu tímabilin - steinöld, bronsöld1 og járnöld - eru kennd við efnið sem helst hafði áhrif á lífshætti þess tíma. Á 15. öld kom sement aftur fram á sjónarsviðið í Evrópu eftir aldalanga fjarveru og fór hægt og hægt að breyta byggingartækni og híbýlum. Náttúruleg efni eins og sykurreyr og bómull breyttu algjörlega lífsháttum, landslagi, og landbúnaði í fleiri en einni heimsálfu þegar farið var að rækta þau í miklum mæli í nýja heiminum á 16. og 17. öld.2
Síðan þá hefur efnisheiminum verið umbylt enn frekar. Uppgötvanir í efnafræði á 19. öld leiddu til þess að farið var að framleiða efni sem áður voru lítið þekkt eða hreinlega ekki til. Á milli 1870 og 1920 voru fyrstu útgáfurnar af plasti, næloni, viskósu, og polyúretani fundnar upp og framleiddar.3
Leiðir fundust til að nýta ál, sem finnst í náttúrunni en var áður fyrr illfært að vinna. Síðan þá hafa óteljandi önnur ný efni verið þróuð og sett í framleiðslu. Í dag er ekki ólíklegt, til dæmis, að eiga flík úr efninu: (C6H9O4O−SC−SNa)n + ½nH2SO4→ (C6H10O5)n + nCS2 + ½nNa2SO4 og borða af pönnu eða pappírsdisk þöktum n F2C=CF2 → (F2C−CF2)n _.4
Þessum nýju efnum hafa verið fundin not í öllu okkar umhverfi. Það er nánast óhugsandi að ímynda sér byggingu, innbú, tæki eða bíl þar sem eitt eða fleiri þessara efna eru ekki til staðar. Eiginleikar þeirra, sérkenni og vinnsluferli til að nýta þau/búa þau til hafa ljáð samfélögum okkar form. Þegar ál er notað er þörf fyrir ákveðinn tækjabúnað, vinnuafl, dreifingarkerfi og orkunotkun. Að búa til plast krefst borpalla og risaröra. Að nota tré þýðir að fara þarf út í skóg til að fella tré. Það getur því komið spánskt fyrir sjónir að svo öldum skiptir hafi efni sjaldan verið sýnileg í vestrænni hugsun og að lítið hafi verið rætt eða rannsakað hvaða áhrif og afleiðingar mismunandi efni hafi á lífshætti og samfélög. Það er fyrst á allra síðustu árum og áratugum sem athyglinni hefur verið beint í auknum mæli að efnisheiminum og áhrifum hans. Að einhverju leyti má rekja þessa yfirsjón til sérstæðrar stöðu efna innan vísindanna síðan franski heimspekingurinn Réne Descartés skildi að hug og efni á 16. öld. Raunvísindin urðu heimili efnafræði, jarðfræði og annarra greina sem snúast um náttúru og eðli efna. Þar eru þau brotin niður í formúlur og kenningar um hvað þau eru, hvaða eiginleika þau hafa, hvernig þau blandast við önnur efni og svo framvegis. Efni skiljast sem harka, bör og þykkt. Þau eru mæld og reiknuð. En áhrif efna á fólk og samfélög hafa aldrei verið talin innan fagsviðs raunvísinda.5 Þar er hendinni sleppt þegar þekkt efni þykja fullstúderuð eða ný eru orðin til. Þegar kemur hins vegar að hugvísindum hefur athyglin beinst að því sem gerist í huga fólks, tungumálum þess, og samskiptum innan samfélaga. Þessi áhersla hefur verið furðu sterk. Jafnvel þegar efnishyggja varð með tímanum talin til almikilvægustu áhrifavalda á þróun fólks og samfélaga varð ekki siðs að taka með í reikninginn eiginleika efnanna sjálfra. Breski mannfræðingurinn Tim Ingold benti á það árið 2016 að innan mannfræði hafi verið skrifað um þætti eins og atbeini (agency), markhyggju (intentionality), notagildi (functionality), rúmskynjun (spatiality), táknfræði (semiosis), andann (spirituality) og holdgervingu (embodiment) í tengslum við efnishyggju, án þess að minnst sé á efnin sjálf.6 Áhrif bómullar, steypu, og áls á heiminn hafa nýlega orðið efniviður í bækur sem sýna fram á hið magnaða mikilvægi efna, en allar eru þær sér á parti innan sinnar greinar.7 Þegar efnafræðingurinn Mark Miodownik gaf út bókina Hlutir skipta máli: Ótrulegu efnin sem móta manngerða veröld okkar (í lauslegri þýðingu) árið 2014, kom þar líklega út fyrsta ritið þar sem saga, eiginleikar, samsetning og notkun margra mismunandi efna sem eru hluti daglegs lífs í nútímanum voru rædd. Til að koma efninu til skila á þennan hátt féll bókin utan allra venjulegra vísindagreina.8 Bæði innan arkitektúrs og hönnunar eru eiginleikar og sérkenni efna lifandi umræðuefni og rannsóknarefni, en engu að síður hefur tiltölulega lítið verið rannsakað þar hvernig sambandi fólks og efna háttar.
Tilgangur þessar greinar er að hvetja til aukinna rannsókna og betri skilningi á efnum og áhrifum þeirra. Efni hennar er álplötur til húsaklæðninga. Þær gefa tækifæri til að ræða hvernig efni tuttugustu aldarinnar hafa haft áhrif á samfélög og umhverfi. Því sem fylgir er sem sagt ætlað að varpa svolitlu ljósi á hvað gerist undir yfirborðinu þegar klætt er með álplötum.
LÍFIÐ OG ÁLIÐ
“Svo gæti farið að sagnfræðingar framtíðarinnar kalli okkar nútíma álöld”, skrifa samtök bandarískra álframleiðenda á vefsíðu sína, og óneitanlega gætu þau hitt naglann á höfuðið. Ál, sem er númer þrettán í frumefnatöflunni, er algengasti málmurinn í jarðskorpunni. Það er því alnáttúrulegt efni, en bundið steintegundum (báxíti) sem gerir bæði tækni- og orkufrekt að vinna það í hreint form. Þótt það hafi verið framleitt í afar takmörkuðu magni þar til í blálok nítjándu aldar var ál þekkt sem málmur þegar á átjándu öld og var svo mikils metið fyrir óvenjulega eiginleika sína að grammið var þá dýrara en gull.9 En fljótlega eftir að þróuð var leið til að skilja það frá báxíti árið 1888 hófst framleiðsla í miklu magni, og áli voru umsvifalaust fundin óteljandi not.10 Það er enda að mörgu leyti undraefni. Ál er létt, sterkt, beygjanlegt, og slitþolið. Eiginleikar þess hafa gert fólki kleift að búa til hluti sem áður voru draumur einn, og sem enn í dag er óhugsandi að byggja úr öðrum efnum: stóra hluti eins og bíla, flugvélar sem eru nógu léttar til þess að fljúga langar leiðir, gervihnetti; og litla hluti eins og brauðristar, álpappír, gosdósir, ýmist innvols í farsímum og svo mætti lengi telja. Þetta afrek tækniframfara nítjándu aldar lá því til grundvallar tækniframförum tuttugustu aldar og er algjörlega órjúfanlegur hluti af lífinu á tuttugustu og fyrstu öldinni.
Eftir því sem sem notkun áls hefur breiðst út og það verið í auknum mæli byggt inní hinn manngerða heim, hafa eiginleikar þess gefið daglegu lífi í flestum samfélögum heimsins form. Það hefur haft áhrif á grundvallaratriði tilverunnar eins og tíma, vinnu, og vöruverð. Eins og félagsfræðingurinn Mimi Sheller hefur bent á, hefur hin ýmsa tækni sem hægt varð að þróa, framleiða og magnframleiða með tilkomu áls til dæmis valdið því að tími er allt annars efnis en eitt sinn var.11 Það er nóg að hugsa til þess að ferðalag sem um miðja nítjándu öld tók tólf vikur hefur nú styst í örfáar klukkustundir og að þangað til fyrir örfáum áratugum síðan hafi bréfaskrif verið raunhæfasti samskiptamátinn þegar langar vegalengdir skildu að. Sé starfsemi nú skipulögð með það að markmiði að stytta tíma er ljóst að hægt er orðið að ná ótrúlegum árángri. Vefrisinn Amazon, sem lofar því í sumum löndum að nánast hver einasta vara berist innan sólarhrings, náði á einhverjum punkti að koma pöntuðum pakka á áfangastað á 23 mínútum.12 Það hafa opnast leiðir til að flytja ótrúlegt magn efna og hluta á milli svæða á háum hraða og ál er eitt af þeim efnum sem hefur verið dreift í gríðarlegu magni heimsenda á milli.
Framleiðsla á hlutum hefur einnig tekið á sig ný og óþekkt form með tilkomu áls og annarra efna sem litið hafa dagsins ljós á tuttugustu öldinni. Með hinum nýju möguleikum til vinnslu, mætti segja að nánast öll vinna við að byggja hinn manngerða heim hafi snarbreyst. Eitt helsta einkenni þessara efna er að þau eru unnin að miklu leyti í fljótandi formi. Hlutir eru steyptir og því er ekki þörf á að gefa þeim form með höndum eða verkfærum. Vegna hins háa hita og þeirra flóknu efnasambanda sem notast þarf við, eru vinnsluferli að miklu leyti vélvædd, enda líkamlega hættulegt að komast í snertingu við efnin á meðan þau eru í vinnslu. Þar sem efnin verða einsleit við bræðslu er einnig lítil þörf fyrir mannlega snertingu til að meta gildi einstakra hluta, styrk þeirra eða veikleika. Mannshöndin hefur því nánast horfið úr gerð hlutanna sjálfra. Þó hefur mannlegt innlegg haldist við. Hlutir eru nú gerðir eftir tækniteikningum og tölvuútreikningum, en enn þarf gjarnan að púsla þeim saman. En markmið hins líkamlega framlags er þá að framfylgja fyrirfram ákveðnu plani og fjölbreytni getur ekki talist nema neikvæð því hún bregður út af planinu. Því er lítið svigrúm fyrir annað líkamlegt innlegg en endurteknar nákvæmishreyfingar sem geta vissulega krafist gríðarlegrar hæfni, en einkennast af mikilli einsleitni. Líkamleg tjáning einstaklingsins hverfur og hennar í stað fá hið úthugsaða plan og tækniteikningar alvald í framleiðslu hluta. Hlutverk mannvits hefur einnig breyst. Í stað þess að margir vinni með efni af ýmsu tagi og hafi því vitneskju um einkenni og eðli mismunandi efna13 og líkamlega hæfni til að gera úr þeim mismunandi hluti, hefur vitneskja um efni að miklu leyti stökkbreyst í raunvísindaþekkingu. Til að skilja efni sem eru hluti af daglegu lífi er orðið nauðsynlegt að skilja stærðfræði, efnafræði og eðlisfræði. Þróun, rannsóknir og vinna með efni hafa því færst frá því að vera gerð á efnunum sjálfum og orðið að miklu leyti fræðileg. Í ofanálag hefur þróun tækjabúnaðar orðið nánast að frumskilyrði fyrir framleiðslu, og hinn vélvæddi hluti framleiðslu eykst stöðugt, sem krefst aftur meiri vinnu við þróun og hönnun á tækni sem nýtist til vinnslu þessara sömu efna.14 Það er því ekki furða að tækni og vísindi hafi á tuttugustu öld fengið mun miðlægara hlutverk í framleiðslu en áður var. Vinnan sem þörf er fyrir til að búa til og byggja hinn manngerða heim úr fljótandi efnum eins og áli og plasti er að mestu orðin raunvísindatengd.15
Með þessum breytingum á efnisnotkun hefur kostnaður við framleiðslu á bæði efnum og hlutum hrunið. Með tilkomu fljótandi efna og tækniteikninga hefur mannlegt innlegg í framleiðslu færst fremst í ferlið því þar eru efni og prótótýpur þróuð og hönnuð, og svo er hægt steypa ótakmarkaðan fjölda af sama hlutnum án mikils kostnaðar. Af er sem áður var að eiga þurfi við gerð á hverju einasta stykki eins og átti til dæmis við um gerð hluta úr við. Þrátt fyrir að á undanförnum áratugum hafi verið þróaðar leiðir til að búa til ný, ódýrari, og að sumu leyti meðfærilegri efni úr tré16 fer því fjarri að hægt sé að að bræða við og steypa hluti í mótum úr honum. Aðföng eru einnig ólík. Til að ná í timbur þarf að fara út í skóg, fella tré, hreinsa þau og draga bolina út úr skóginum. Þar sem hver skógur er ólíkur öðrum er að einhverju leyti takmarkað hversu mikið er hægt að vélvæða þann þátt vinnslunnar og því er mannlegra starfskrafta að hluta til þörf.17 Vinnsla þarf pláss og tíma því það þarf að þurrka timbur. Náttúran setur líka ákveðin mörk á framleiðsluna því magnið helst aðeins við sé nýjum trjám gefinn tími til að vaxa.18 Aðföng á áli eru háð færri slíkum takmörkunum.19 Mannafls er vissulega þörf við vinnslu úr námum en þegar vinnsla úr námu hefur einu sinni hafist er hægt að vinna gríðarlegt magn við nákvæmlega sömu aðstæður, svo rekstrarkostnaður snarminnkar með framleiðslu á auknu magni. Almennt er talið að álbirgðir heimsins séu nægilegar til að endast í 2-400 ár nema endurvinnsla tryggi endalausar birgðir (70% af áli sem framleitt hefur verið frá upphafi er enn í notkun). Magnvinnsla hefur ekki látið standa á sér. Árið 1899 voru framleidd sirka 6000 tonn20 af áli en árið 2019 voru framleidd 63,7 billjón tonn.21
Þær breytingar sem hafa orðið á framleiðslu hins manngerða heims með fljótandi efnum hafa leitt til gríðarlegrar lækkunar framleiðslukostnaðar á hlutum. Almennt er svo litið á að þetta sé jákvæð þróun. Innan hagfræði táknar lækkandi kostnaður aukna velmegun því hver neytandi hefur tækifæri til að kaupa meira fyrir þá upphæð sem hann hefur til umsýslu. Sumir líta svo á að lækkað verð tákni aukið frelsi því fólki sé með því gefið aukið val.22 Stækkun markaða hefur því verið talin eftirsóknarverð þróun, sem og dreifing og notkun á vörum á lægra verði. Samkvæmt þessum skilningi getur það tvímælalaust talist jákvætt að sömu álplötur séu notaðar til að klæða byggingar á sem flestum stöðum. Eftir því sem þær dreifast víðar eykst jú magnið, kostnaður lækkar og val eykst, fyrir utan það svo að álið er endurvinnanlegt. Á yfirborðinu getur því virst að álplötur til húsaklæðninga séu sérlega jákvæð þróun.
AÐ GERA HLUTI ÚR EFNUM
Það þarf ekki að koma á óvart, í ljósi þessara sérkenna áls, að það hefur sigrað heiminn og því verið fundin stöðugt fleiri not. Ál hefur tekið við af mörgum öðrum efnum hverra notkun hefur dregist saman. En hin mikla útbreiðsla og notkun eins efnis hefur haft ýmsar hliðarverkanir sem oft eru minna sýnilegar eða lítið ræddar. Það er augljóst að með hinni minnkandi þörf fyrir fólk í framleiðslu, sem fylgt hefur áli og öðrum fljótandi efnum tuttugustu aldar, hefur skapast líkamleg fjarlægð á milli fólks og byggingar hins manngerða heims. Leiða má að því líkum að þessi fjarlægð geti dregið úr hæfni okkar til þess að halda honum við, sem og tækifærum til tjáningar, samvinnu, og samveru.
Víðtæk dreifing á sama stykki eða hlut getur skapað áhættu á minna vali seinna meir. Ein ástæða er sú að þegar um náttúruleg efni er að ræða er kunnáttu þörf til að rækta eða ná í og vinna úr mismunandi efnum. Þegar notkun á ákveðnum efnum dregst saman, dregst hæfni til að vinna úr þeim hægt og hægt saman. Það verður erfiðara að finna fólk sem kann að vinna með efni svo gæði útkomunnar séu örugg. Þetta getur ekki eingöngu valdið hærra verði á efnunum og viðhaldi þeirra, heldur getur það einnig orðið til þess að notkun þeirra sé einfaldlega hætt.
Sú fjölbreytni sem fylgir því að framleiða færri hluti í einu dregst einnig saman. Þekking á sérkennum efna og hluta frá hverjum stað, vitneskja um dreifingu þeirra og virði dregst saman, því það eru framleiddir færri ólíkir hlutir. Nýlega var til dæmis bent á að í Evrópu eru einungis örfáar verksmiðjur eftir sem enn geta framleitt húsgögn úr stráum, en áður var slík húsgagnaframleiðsla í litlum verksmiðjum gríðarlega algeng og fjölbreytt því hvert svæði vann eftir eigin hefð að einhverju leyti. Í sumum tilfellum voru slíkar vörur gerðar úr efnum sem hægt var að sækja í nánasta umhverfi hverrar verksmiðju, og þegar um náttúruleg efni var að ræða fylgdi slíkri starfsemi einnig verðmæt vöktun umhverfis þegar vel var að staðið. Magnframleiðsla og dreifing á framleiðslu úr fáum efnum dregur almennt úr slíkri vöktun og eykur þess í stað á umhverfisáhrif því þegar hlutir eru framleiddir í meira magni á einum miðlægum stað, jafnvel langt frá upprunastað efnanna sem notuð eru, veldur það aukinni umferð og olíunotkun þar sem dreifa þarf vörunum yfir langar vegalengdir.
Þrátt fyrir að vinna við samsetningu á hlutum eða byggingum úr áli, plasti og öðrum fljótandi efnum krefjist bæði nákvæmi og hæfni, þá er hæfnin afar takmörkuð í samanburði við það sem iðnaðarmenn hafa í gegnum tíðina þróað og beitt. Þegar hlutir koma með ákveðinni lögun úr steyptum mótum er erfitt að laga þá að mismunandi aðstæðum. Þannig hefur sá/sú sem vinnur með þá takmarkaðra val í vinnu sinni og tækifærin til að leysa vandamál sem koma upp í samsetningu eða byggingarferli eru færri. Tækifærunum til að þróa verk í vinnslu, bæta við persónulegum smáatriðum og laga hluti að aðstæðum fækkar og einhæfni eykst bæði vegna þess að minna er hægt að gera við efnin sem notuð eru þegar þau hafa einu sinni verið steypt í endanlegt form og vegna lakari hæfni og þekkingar. 23
Þegar ál, eða önnur fljótandi efni eru notuð, breytist samvinna þeirra sem vinna við byggingu eða gerð hluta. Þegar mörg þeirra stykkja sem nota þarf til byggingar eru forsteypt, hverfur sá teygjanleiki í framleiðslu sem gæti annars leyft samvinnu hæfra einstaklinga að breyta og bæta endanlega útkomu.24 Tækifæri til þróunar á nýjum lausnum í vinnuferlum og framleiðslu minnka og möguleikar á því að sjá og læra eitthvað nýtt, hvort sem er af efnunum sjálfum eða samstarfsfólki, dragast saman. Vitneskja um hvað virkar best í ákveðnum aðstæðum dregst saman og þar með geta til að nota mismunandi efni og lausnir.
Þar sem lágur kostnaður veltur á magnframleiðslu sem veltur á útbreiddri notkun á sömu stykkjum, fækkar tækifærum á að takast á við mismunandi verkefni og líkurnar á því að vinna við að byggja eða setja sama hlutinn saman aukast. Á meðan leit að lægra verði ræður vali á efnum er líklegt að ákveðin lykilform og stykki verði æ meira ráðandi í framleiðslu, sem dregur úr vali og eykur einhæfni enn frekar. Þar sem efni og hlutir eru framleidd eftir skýrum stöðlum er minnkandi þörf fyrir marga mismunandi dreifingaraðila sem hafa til umsýslu mismunandi tegundir af efnum. Á sama tíma og markaðurinn stækkar er því líklegt að þáttakendum fækki.
Í tilfelli álplatna til húsaklæðninga má segja að fjölbreytni, tilfinning fyrir takti tímans og möguleikar til tjáningar dragist í ofanálag saman. Hið augljósa einkenni hluta úr áli, að ekki sé hægt að breyta þeim þegar þeir hafa einu sinni verið steyptir, hefur fengið heitið viðhaldsfrítt í tilfelli álplatnanna. Orðið ýjar að bæði hagvæmni og þægindum sem fylgja notkun þeirra. En það dregur athyglina frá því að notkun þeirra dregur einnig úr merkjum um gang náttúrunnar og samspili fólks við umhverfi sitt. Almennt setur náttúran mark sitt á hið manngerða umhverfi og táknar þannig takt tímans. Á tímabili var Karlsbrúin í Prag var dökk af sóti, og Trevi gosbrunnurinn í Róm hafði allt annan svip fyrir hreinsun og viðgerðir árið 2015. Ástand þeirra gefur innsýn í tímabil og stemmingu á ákveðnum stöðum á ákveðnum tíma. Á sama hátt er að miklu leyti hægt að lesa aldur bóndabæja í ölpunum í lit á viðnum sem þau eru byggð úr. Hægt er að skoða og ræða hvers konar aðstæður og forgangsröðun leiða til mismunandi útlits og ástands. Áhrif tíma og náttúru á efni hefur þannig skapað fjölbreytni í viðmóti og ótæmandi lærdóm og efni til skoðunar og umhugsunar. Reglulegt viðhald skapar einnig tækifæri til að setja mark sitt á hið manngerða umhverfi. Hver kynslóð hefur þannig fengið tækifæri til að reyna sig og ljá hverjum stað og tíma form. Hægt er að gera tilraunir með breytingar af ýmsu tagi eða halda góðum hlut einfaldlega sömum. Þar sem ómögulegt er að eiga við ál þegar það hefur einu sinni verið steypt eru tækifæri til að gera slíkar breytingar á byggingum takmörkuð. Notkun á áli getur því á sama tíma táknað gervihnattaöld og að tíminn standi í stað.
YFIRBORÐ OG EFNI
Stundum er talað um yfirborð sem eitthvað sem er tómt eða skiptir litlu máli. Á svipaðan hátt hefur gjarnan verið gert ráð fyrir að efni hafi lítið til síns máls. En þegar yfirborð og efni eru sett saman, eins og í þessu tilfelli álplatna, kemur upp úr dúrnum að þau geta haft djúpa þýðingu og ótalin áhrif. Það er hægt að lesa úr álplötunum að val á efnum skiptir máli. Og í ljósi hinna lítt sýnilegu en afar raunverulegu áhrifa sem fylgja notkun þeirra er full ástæða til að spyrja, skoða, og rannsaka hvaða áhrif notkun á efnum hefur áður en þeim er sleppt út í heiminn og skellt í notkun. Efnin sem við hér hafa verið rædd, ál og ýmsar tegundir af plasti, hafa mikilvæga kosti verða áfram hluti af hinum manngerða heimi. En það gætu legið tækifæri í því að líta til þess hvort og hvernig notkun á öðrum efnum, í þeim aragrúa tilfella sem það er mögulegt, getur haft eftirsóknarverð áhrif. Gætu efni þjónað þeim tilgangi að auka úrval, gefa tækifæri til tjáningar, mannlegrar samvinnu og jafnvel nýs lærdóms? Hér gæti verið til mikils að vinna.
1. Um hin forvitnilegu áhrif sem framleiðsla á bronsi, sem unnið er í fljótandi formi, hafði á samfélag síns tíma sjá: Kuipers, M.H.G. 2019. Material is the Mother of Innovation. A Cultural Economic Analysis of Craft. Ritstj. Mignosa, A. og Kotipalli, P., Palgrave McMillan. Bls. 257-270.
2. Mintz, S. 1985. Sweetness and Power: The Place of Sweetness in Modern History. New York: Penguin Books. Beckert, S. 2014. Empire of Cotton: A Global History. New York: Knopf.
3. Samkvæmt íslenskri málhefð eru mörg þessara efna gjarnan nefnd gerviefni. Þó er það svo að í grunninn eru þau líka búin til úr náttúrulegum frumefnum. Oft er um að ræða kolefni (hráolíu, gas) sem þarf að sækja djúpt í jörðu. Munurinn á milli þessara nýju efna og þeirra sem kalla mætti náttúruleg efni er frekar falinn í ferlinu sem þarf til að búa þau til og því brotna þau ekki niður í náttúrunni á sama hátt og tré eða bómull. Þennan sama skilning, eins og um sé að ræða eitthvað falskt eða óupprunanlegt, er einnig að finna í orðsifjum annarra tungumála.
4. Þó nú sé byrjað að banna flúor, svo slíkir hlutir gætu horfið af markaði áður en langt um líður. https://ing.dk/artikel/otte-aar-efter-de-foerste-forside-advarsler-nu-kommer-forbuddet-mod-fluorstoffer-228488
5. Sjá til dæmis bækur franska heimspekingsins/vísindafræðingsins Bruno Latour og annarra höfunda sem skrifa innan vísindafræða.
6. Ingold, T. 2011. Being Alive. Essays on movement, knowledge and description. London and New York: Routledge. Bls. 20.
7. Sheller, M. 2014. Aluminum Dreams: Making of Light Modernity. Cambridge MA and London: The MIT Press. Beckert, S. 2014. Forty, A. 2012. Concrete and Cutlure: A Material History. London: Reaktion Books. Mitchell, T. 2011. Carbon Democracy. Political Power in the Age of Oil. London, New York: Verso.
8. Miodownik, M. 2014. Stuff Matters: Exploring the Marvelous Materials that Shape Our Man-Made World. Boston and New York: Houghton Mifflin Harcourt.
9. Það hefur verið þekkt og jafnvel notað í einhverju formi svo árþúsundum skiptir, en ekki sem málmurinn sem við þekkjum í dag.
10. Sjá t.d. https://www.riotinto.is/?PageID=22
11. Sheller, M. 2014.
12 https://www.nytimes.com/2015/08/16/technology/inside-amazon-wrestling-big-ideas-in-a-bruising-workplace.html
13. Trésmiðir, járnsmiðir, píparar og aðrir iðnaðarmenn þurfa jú að skilja efnin sem þeir vinna með til að geta skilað af sér sæmilegu verki.
14. Sjá t.d. Katz L. and Goldin C. 2008. The Race between Education and Technology. Cambridge MA and London: The Belknap Press of Harvard University Press.
15. Þróun sem samkvæmt svarsýnustu spám gæti leitt á einhverjum punkti til þess sem kallað á ensku Robocalypse en gæti fengið heitið vélendir á íslensku. Afleiðingar vélvæðingarinnar voru „niche“ áhugaefni frá því á sjötta áratugnum en hafa á síðustu árum orðið að afar líflegu umræðuefni.
16. FAO 2009. The State of the World’s Forests 2009. Rome: FAO. Bls 62-65.
17. Þó taka verið tillit til þess að viðarvinnsla hafi bæði færst úr fjallendi og verið vélvædd með miklum hraða á seinni hluta tuttugustu aldar.
18. Séu aðföng skipulögð til að tryggja birgðir er mannafla þörf til að planta og halda skógum við sem eykur óneitanlega kostnaðinn.
19. Þó svo að námuvinnsla krefjist töluverðs vinnuafls og sé viðkvæm fyrir rigningum.
20. Belli, P. J. 2012. Das Lautawerk der Vereinigte Aluminium-Werke AG (VAW) von 1917 bis 1948. Münster: Lit Verlag. Doktorsritgerð, leiðbeinandi Dr. Bernard Hin. Bls. 30–31
21. http://www.world-aluminium.org/statistics/
22. Í hagfræði er gengið útfrá því að neytandinn hafi gefna upphæð til umsýslu.
23. Í skýrslu sem gerð var fyrir Hið Konunglega Breska Verkfræðingasamband árið 2011 var bent á að í Bretlandi er líklegt að orkusparnaður sem hægt væri að ná fram með nýrri tækni tapist vegna skorts á líkamlegri hæfni til að bæta hinni nýju tækni við byggingar. Royal Academy of Engineering. 2012. Heat: Degrees of Comfort? Options for heating homes in a low-carbon economy. London: The Royal Academy of Engineering. Bls. 51.
24. Um samvinnu, sjá: Sennett, R. 2012. Together: The Rituals, Pleasures and Politics of Co-Operation. New Haven: Yale University Press.
Ljósmynd: Þorvaldur Örn Kristmundsson
Efnisnotkun hefur alla tíð haft djúp
áhrif á aðstæður, samfélög og lífshætti.
Heilu tímabilin - steinöld, bronsöld og járnöld
- eru kennd við það ákveðna efni sem helst
hafði áhrif á lífshætti á þeim tíma.
Ljósmynd: Kjartan Hreinsson
Efni skiljast sem harka, bör og þykkt. Þau eru mæld og reiknuð. En áhrif efna á fólk og samfélög hafa aldrei verið talin innan fagsviðs raunvísinda.
Ljósmynd: Þorvaldur Örn Kristmundsson
„Svo gæti farið að sagnfræðingar framtíðarinnar kalli okkar nútíma álöld”
„Svo gæti farið að sagnfræðingar framtíðarinnar kalli okkar nútíma álöld”
Diderot Encyclopedia 1751
Reglulegt viðhald skapar einnig tækifæri til að setja mark sitt á hið manngerða umhverfi.
Þar sem ómögulegt er að eiga við ál þegar það hefur einu sinni verið steypt eru tækifæri til að gera slíkar breytingar á byggingum takmörkuð.
Diderot Encyclopedia 1751
Hið augljósa einkenni hluta úr áli, að ekki sé hægt að breyta þeim þegar þeir hafa einu sinni verið steyptir, hefur fengið heitið viðhaldsfrítt
í tilfelli álplatnanna.
Diderot Encyclopedia 1751