Steining Ágústa Kristófersdóttir
PRENTEFNI (PDF)
Bygging
leikhússins verður vonandi til þess, að svikular sléttunarhúðir
á veggjum hverfa og allur sá mikli kostnaður, sem hefir fylgt
hinni sífelldu málningu á húsum að utan. Að vísu hafa nokkrar
framfarir orðið í þessu síðustu árin. Það hefir tekist að
nota smámöl og steinlim til þess að gera smákornótt yfirborð,
og fer það oft betur en sleikt og slétt. Hvorttveggja hefir þó
þann galla, að dauði, grái steinlímsliturinn helzt. Þá hafa
menn fengið útlent sléttunarefni, sem er að mestu leyti malaðar,
útlendar steintegundir. Útlitið verður þá betra. En þetta er
dýrt, og endingin óviss í íslenzku veðurlagi. Mér kom til
hugar, að það kynni að mega nota íslenzkar steintegundir til
þess að prýða sléttunarhúðina og vernda hana. Hvítan, harðan
kvarts mátti fá úr gömlu gullnámunni í Miðdal o. v. Hvítan og
furðu harðan kalkstein má fá úr Esjunni. Af dökkum steinum var
hrafntinna vafalaust bezt. En hana er óvíða að fá, nema uppi i
öræfum landsins. Ég réðist i að útvega þessar steintegundir,
vildi helzt nota innlent efni og bjóst auk þess við, að það
yrði sízt dýrara en útlent. Steinarnir voru muldir, ljósu og
dökku tegundunum blandað saman, til þess að fá fallegan
dökkgráan lit á húsið og kornunum þrýst inn í
sléttunarhúðina, svo að þau sykkju að mestu inn í hana. Verk
þetta var ekki vandalaust, en múrarameistari Kornelíus Sigmundsson
og starfsmenn hans leystu það vel af hendi, svo að yfirborðið
var jafn gróft og fór vel. Litlu einu af silfurbergi var blandað
saman við, enda glitrar það i sólskini af afturkasti hrafntinnu
og Ijósbroti i silfurberginu. Hér er auk þess um verulegan sparnað
að ræða, því að öll húðunin með þessu nýja íslenzka efni
á leikhúsið kostaði um kr. 12.000, en hefði kostað um kr.
30.000, ef erlendum tilboðum um steinhúðun hefði verið tekið,
sem auk þess var hvergi nærri eins falleg.1
Þetta skrifaði Guðjón
Samúelsson húsameistari ríkisins í Tímarit verkfræðingafélags
Íslands árið 1933 og leiðir okkur þar með inn í tímabil
steiningar í íslenskri byggingarlist sem stóð allt fram undir lok
6. áratugarins. Þessi aðferð við að klæða hús sem þróuð
var við byggingu Þjóðleikhússins gafst svo vel að nær allar
nýbyggingar þess tíma fengu klæðningu af þessu tagi. Einnig
voru mörg eldri hús forsköluð það er múrhúðuð og steinuð
sem síðar þótti hið versta skemmdarverk.
Form, litur og áferð
er það sem mætir auganu fyrst þegar horft er á byggingu. Virkni
hennar og innra skipulag er hulin bak við ytra byrði. Á fyrstu
áratugum 20. aldar risu hér á landi fjölmargar byggingar úr
steinsteypu, byggingar sem áttu að vera glæsileg kennileiti bæði
í þéttbýli og sveit. Húsin voru sléttmúruð og svo ýmist
kölkuð eða máluð eða jafnvel klædd með lituðu sementi. En sá
hængur var á, að þessar klæðningar þoldu illa íslenskt
veðurfar og húsin urðu fljótt skellótt og óþrifaleg. Þau
höfðu ekki yfir sér þann nútímalega glæsileika sem til stóð.
Húsameistarinn Guðjón gafst ekki upp og fann í samvinnu við
múrarameistarann Kornelíus Sigmundsson upp aðferð sem bætti úr
þessu. Eftir 6 ára reynslu skrifaði Kornelíus:
Húðun
úr hrafntinnu og kvartsi er prýðilega falleg og alveg sjálfsagt,
að húða öll ný hús á þennan hátt. Húsin líta alltaf eins út, hvort sem rignir eða sól er á lofti, og er það mikill
fegurðarauki.2
Heilu hverfin í
þéttbýli á Íslandi eru grábrún að lit, þökin eru stundum
græn, oft rauð og kannski blá. En útveggirnir, þeir eru mest
bara í grábrúnum lit steiningarinnar. Flest byggð á árunum frá
1930 og fram yfir 1950. Borgarbúar gerðu athugasemdir um litleysi
borgarinnar þar sem skeljasandur, hrafntinna og marmari í ýmsum
tónum bjuggu til einhæfan litaskala frá gráu yfir í brúnt.
Svo, eins og gengur,
fer steiningin úr tísku. Betri efni til múrhúðunar, málningar og
síðar klæðningar koma á markað og steiningin lætur undan sem
vinsælasta utanhússklæðningin. Málningin tekur við og einnig
tímabil alkalískemmda, múrviðgerða og leitarinnar að hinni
fullkomnu eilífðarklæðningu.
Þær væntingar sem
menn höfðu haft til steiningarinnar, sem á sínum tíma var að nú
væri tími steypuviðgerða liðinn, stóðust ekki. Vissulega
entist steiningin lengur en aðrar klæðingar sem í boði voru og
kallaði á minna viðhald. Viðgerðir á steinuðum veggjum voru
hins vegar vandmeðfarnar, erfitt reyndist að ná sama litatóni og
áferð aftur og viðgerðir urðu að skellum á veggjunum og síst
til að fegra húsin. Sérstaklega þegar notast var við þá aðferð
að kítta í sprungurnar og þrýsta svo steinmulningi í kíttið.
Viðgerðirnar hlykkjuðust um ytra byrði húsa og bjuggu til
óregluleg mynstur sem trufluðu heildamyndina.
Árið 1995 var gert
við Aðalbyggingu Háskóla Íslands að utan og hún endursteinuð. Var það mat sérfræðinga að steining væri falleg og endingargóð
aðferð við klæðningu og viðhalda bæri þekkingu á henni.3 Enda var á þessum tíma farið að bera nokkuð á því að
nýbyggingar væru steinaðar má þar til dæmis nefna nýbyggingu
Rauða krossins við Efstaleiti frá árinu 1998 eftir Glámu/Kím
arkitekta. Síðan þá hafa fjölmörg stórhýsi í opinberri eigu
verið endursteinuð með góðum árangri og einstaklingar í auknum
mæli látið endursteina íbúðarhús sem mörg voru farin að láta
á sjá eftir 70 ár af rigningu og roki. Í millitíðinni höfðu
sumir freistast til þess að mála steininguna eða jafnvel klæða
hús að utan með til dæmis steni plötum – sem eru um margt
líkar steiningu í áferð en samsetning þeirra skapar aldrei það
samfellda yfirborð sem ekta steining gerir. Slíkar aðferðir voru
ekki til að bæta útlit húsanna.
Steiningin, ólíkt
mörgum öðrum aðferðum við húsaklæðningu, binst útveggjunum
og fellur að þeim, formum og misfellum. Á meðan bárujárn, sink,
ál, steni og allt hvað það heitir er jafnan lagt á grind sem
reist er utan um berandi veggina. Tilfinningin fyrir húsinu sem
skúlptúr verður fyrir vikið sterkari með steiningu en slíkum
klæðningaraðferðum. Efniskenndin verður áþreifanlega þung,
þegar steinsteyptir veggir bindast múr og muldu grjóti. Ef við
hverfum aftur til fyrsta hússins sem aðferðin var notuð við,
sjálfs Þjóðleikhúss Guðjóns Samúelssonar býr vísunin í
klettaborgina, álfahöllina sem Guðjóni sjálfum var hugleikin, í
efninu. Húsið er steinn. Býr ekki einhver sannleikur í þessari
dökku, hrjúfu klæðningu sem færir okkur náttúruna og töfra
álfasteina inn í miðja borgina?
En þegar steiningin
var notuð á timburhús þá var það einskonar blekkingaleikur,
hús sem áður höfðu verið klædd bárujárni eða jafnvel að
timbrið fékk að njóta sín urðu nú fyrir töfra steiningarinnar
að steinhúsum – í það minnsta á ytra byrði. Fyrst þótti
fínt að forskala en seinna var það talið „fagurfræðilegt
morð.“4 Nú er forskölun skræld af húsum eða jafnvel bárujárn sett utan
á múrhúðina – þannig að húsið fái með eins konar grímu
sitt upprunalega útlit – ef það er þá til.
Fyrir þá sem hafa
sérstakan áhuga á steiningu má benda á að í grein Kornelíusar
Sigmundssonar frá árinu 1939 er að finna nákvæmar leiðbeiningar
um hvernig má steina vegg, kannski best að byrja á litlum fleti
áður en ráðist er í stærri byggingar. Ég reyndi þetta sjálf,
það var skemmtilegt. skemmtilegt.
1.
Guðjón Samúelsson: „Íslenzk
byggingarlist“ Tímarit verkfræðingafélags Íslands. 6.
hefti, 18. árg. 1933. Bls. 53.
2. Kornelíus Sigmundsson: „Hrafntinnu-kvartshúðunin.“ Tímarit iðnarðarmanna. 3. hefti, 12. árg. 1939. Bls. 34.
3. Oddur Hjaltason: „Hrafntinnu-kvartshúðun.“ Árbók VFÍ/TFÍ. 2. tölublað. 1996.
4. Bragi Ásgeirsson: „Torfhleðslusýningin Fold ´86“ Morgunblaðið 8. október 1986. Bls. 10.