Þrjú Áköll til Arkitekta II: Yfirborð Le Corbusier
Þýðing Óskar Arnórsson

PRENTEFNI (PDF)
Rúmmynd er hjúpuð yfirborði, yfirborði sem deilt er eftir stýrilínum og sköpunarlagi

rúmmyndarinnar og dregur þannig fram þannig einkenni rúmmyndarinnar.

Nú til dags hræðast arkitektar rúmfræðilega myndun yfirborðs.

Rúmfræði mun leysa höfuðúrlausnarefni nútímabyggingarlistar.

Verkfræðingar nýta sér sköpunarlag og áherslur forma undirokaðir af ströngum kvöðum afdráttarlauss prógramms. Þeir skapa plastískar staðreyndir sem eru tærar og áhrifamiklar.

Arkitektúr hefur ekkert með „stílana“ að gera.1 Loðvík 15., 14., 16. eða gotneski stíllinn eru arkitektúrnum eins og fjöður á höfði konu; öðru hverju eru þeir snotrir, en ekki alltaf, og aldrei meira en það.2


ANNAÐ ÁKALL YFIRBORÐ
Fyrst arkitektúr er haglegur, tilhlýðilegur og mikilfenglegur leikur rúmmynda í ljósi, þá er verkefni arkitektsins að gæða yfirborðin sem hylja rúmmyndirnar lífi, án þess að þau verði sníklar sem gleypa í sig rúmmyndina sér til hagnaðar. Þetta er sorgleg saga nútímans.

Að eftirláta rúmmyndinni dýrð forms síns í ljósi annars vegar, en hins vegar að laga yfirborðið að þörfum sem lúta oft nytsemi, það er að skuldbinda sig til þess að finna sköpunarlag og áherslu formsins í niðurdeilingu yfirborðsins. Það er að segja: Arkitektúr er hús, hof eða verksmiðja. Yfirborð hofs eða verksmiðju samanstendur oftast af vegg götuðum hurðum og gluggum; þessi göt brjóta of formið niður, það þarf að gera þau að áherslu formsins. Ef grunnform arkitektúrs eru kúlur, keilur og sívalningar, þá eru sköpunarlag og áhersla þeirra byggð á hreinni rúmfræði. En þessi rúmfræði skýtur arkitektum dagsins í dag skelk í bringu. Nú til dags þora arkitektar ekki að gera palais Pitti eða rue de Rivoli; þeir gera boulevard Raspail. 3


Staðsetjum þessar athugasemdir á velli ríkjandi þarfa: Við þurfum borgir sem eru nytsamlega teiknaðar, með fallegar rúmmyndir (borgarskipulag). Við þurfum götur þar sem hreinleiki, aðlögun að húsnæðisþörfum, fjöldaframleiðsla á byggingarsvæðum, metnaður í áformum og ró heildarinnar gagntekur andann og vekur upp yndisþokka hluta sem eru getnir af hamingju.

Þegar yfirborð einfalds frumforms er mótað keppir það við rúmmyndina sjálfa: mótsagnarkenndar fyrirætlanir—boulevard Raspail.

Þegar yfirborð flókinna rúmmynda hljóma saman og hvíla í rúmmyndinni: sjaldgæft úrlausnarefni—Invalides eftir Mansart.

Úrlausnarefni tíðarinnar og samtímafagurfræðinnar: Allar leiðir liggja að endurinnleiðingu einfaldra rúmmynda: Vegir, verksmiðjur, stórverslanir, öll úrlausnarefnin sem birtast okkur á morgun í samsettu formi áður óþekktrar heildarmyndar sem engin önnur tíð hefur þekkt. Yfirborð, götuð af nauðsyn, eiga að fylgja sköpunaráherslum þessara einföldu forma. Þessar áherslur eru í reynd taflborð eða rúðunet—amerískar verksmiðjur. En þessi rúmfræði hræðir!

Verkfræðingar nútímans, sem sekki leita að arkitektónískum hugmyndum heldur eru einfaldlega leiddir áfram af nauðsynjum afdráttarlauss prógramms, nýta sér sköpunaráherslur rúmmynda; þeir vísa veginn og skapa plastískar staðreyndir sem eru tærar og áhrifamiklar sem ljá augunum ró og andanum gleði rúmfræðinnar. 

Þannig eru verksmiðjurnar, traustvekjandi frumvextir okkar tíma.

Verkfræðingar nútímans samsama sig þessum lögmálum sem Bramante og Rafael beittu fyrir langa löngu.

NB—Hlustum á ráð amerískra verkfræðinga. En hræðumst ameríska arkitekta. Sönnun:
© F.L.C. / Adagp, Paris, 2020

1. Athugið að LeCorbusier er ekki að afneita hugtakinu „stíll“ í eintölu heldur þvert á móti að hampa því á hlut „stílanna“ í fleirtölu sem voru kenndir í Beaux Arts listaakademíunni í París á nítjándu öld og við upphaf þeirrar tuttugustu. Þessir stílar gerðu ráð fyrir að byggingar ættu að vera í mismunandi stílum—fangelsi eins og hræðilegar dýflissur prýddar stálrimlum og útsýnisturnum og stjórnsýslubyggingar í nýlendunum í nýklassískum stíl.
2. Á miklu frjósemisskeiði sjónlista í Frakklandi voru „stílar“ nefndir eftir konungunum. Loðvík 14. er oft nefnd „frönsk klassík,“ íburðarlaus og hátignleg. Loðvík 15. er einnig þekkt sem rókókó, fínleg og mjög íburðarmikil, en Loðvík 16. dregur aftur úr og er oft þekkt sem nýklassík. Le Corbusier er þó ekki upp á kant við þessa stíla eins og þeir voru hannaðir í fortíðinni, heldur eins og þeir eru hannaðir inn í samtíma hans árið 1923, þar sem eitt herbergi getur verið með Loðvík 14. stóla, annað með Loðvík 15. stóla, og enn annað með Loðvík 16 stóla. Sömu sögu má segja um „gotneska stílinn“—hér á hann að sjálfsögðu ekki við raunverulegar byggingar, heldur svokallaða gotneska endurvakninu átjándu og nítjándu aldar.
(Loðvík 14., Loðvík 15. og Loðvík 16.)
3. Það sem Le Corbusier virðir við Rue de Rivoli er einhæf og vægðarlaus endurtekningin í súlnaröð framhliðarinnar, en um leið pólitísk tilurðarsaga breiðgötunnar, sem segja má að sé málamiðlun á milli aristókratískra gilda sem birtast okkur í torgum og höllum annars vegar og nútímaborgarskipulagi með skipulagskvöðum hins vegar. Le Corbusier fyrirleit hins vegar Boulevard Raspail, þar sem ægir saman endurreisn, barrokk og nýklassík, þótt allir þessir „stílar“ hafi verið á þeim tíma margra alda gamlir.STEINING ÁGÚSTA KRISTÓFERSDÓTTIR


© F.L.C. / Adagp, Paris, 2020

Nú til dags hræðast arkitektar rúmfræðilega myndun yfirborðs.
© F.L.C. / Adagp, Paris, 2020


Fyrst arkitektúr er haglegur, tilhlýðilegur og mikilfenglegur leikur rúmmynda í ljósi, þá er verkefni arkitektsins að gæða yfirborðin sem hylja rúmmyndirnar lífi, án þess að þau verði sníklar sem gleypa í sig rúmmyndina sér til hagnaðar.© F.L.C. / Adagp, Paris, 2020
      

Mark


                                                                       YFIRBORÐSEFNI     ÍTAREFNI