Vísir að þýðingu Óskar Arnórsson
PRENTEFNI (PDF)
Eftirfarandi
texti er þýddur af undirrituðum úr einhverju frægasta riti
arkitektúrbókmennta tuttugustu aldarinnar, bókinni Vísi
að arkitektúr eftir
svissneska arkitektinn Le Corbusier, áhrifamesta arkitekt
módernismans.1 Enginn annar hlutgerði hræringar samtíma síns, en hafði um leið
jafn mikil áhrif á þann sama samtíma, eins og hann. Réttum
hundrað árum eftir að Vísir
að arkitektúr kom
út er enginn arkitekt rýndur og ræddur í sama mæli og Le
Corbusier, hvort sem það er af arkitektum, nemum, sagnfræðingum
eða almenningi. Reykjavík hefði litið öðruvísi út hefði hans
aldrei notið við. Hún væri hvorki betri né verri, heldur annars
konar, hvort sem litið er til útlits einstakra bygginga eða til
skipulags heilu hverfanna á höfuðborgarsvæðinu og víðar.
1. LeCorbusier (fæddur 6. október 1887, dáinn 27. ágúst 1965) hét
réttu nafni Charles-Édouard Jeanneret. Textinn birtist fyrst árið
1920 sem sjálfstæð ritgerð í ritgerðaseríu í tímaritinu L'Esprit nouveau: revue internationale d’ esthétique (Nýr andi: Alþjóðlegt tímarit um fagurfræði), sem LeCorbusier stofnaði sjálfur ásamt málaranum Amédée Ozenfant.
2. „Rúmmynd“ er bein þýðing á orðinu „volume“ úr frönsku. Flestir þýðendur Le Corbusiers á indó-evrópskar tungur kjósa að þýða ekki orð af latneskum uppruna eins og „volume“ sem er að finna í dönsku, norsku og sænsku þýðingunum. Svo mörg orð í arkitektónískri umræðu (jafnvel orðskrípið „arkitektónísk“) eru annað hvort latnesk eða grísk að uppruna að íslenskur texti sem ekki innihéldi tilraunir til að þýða þau kæmi lesanda bókstaflega „spánskt fyrir sjónir.“ Því hefur þýðandi hér kosið að þýða öll orð sem ekki eru í almennu máli arkitekta, t.d. „volume,“ sem er meginefni kaflans á undan en sem spilar stórt hlutverk í kaflanum um yfirborðið. Að mati þýðanda þarf ekki mikið til að tileinka sér þýðingu á því orði, sem verður þjálla er líður á textann. Hins vegar hefur þýðandi kosið að halda sumum orðum af latneskum uppruna sem eru notuð í almennu máli arkitekta. Þar ber fyrst að nefna „arkitektúr“ og „arkitekt,“ en það færi önnur ritgerð í að gera grein fyrir ákvörðun þýðanda að nota gríska orðið „arkitektúr“ í stað „byggingarlistar.“ „Plan“ er annað orð sem þýðandi hefur ákveðið að halda í þótt margir arkitektar tali um „áætlun,“ „grunnmynd“ og „skipulag.“ Og það er einmitt ástæðan fyrir að þýðandi heldur orðinu „plan!“ Oft notar Le Corbusier orðið „plan“ til að fanga allar merkingarnar í einu. Það tæki því mikinn kraft úr kaflanum um „planið“ að þýða hann sem t.d. „grunnmyndin,“ og hefur því hefur „plan“ fengið að halda sér. Að lokum má nefna að „yfirborð“ er aftur á móti áreynslulaus og um leið þráðbein þýðing á franska orðinu „surface,“ sem er fengið af latneska orðinu „superficies;“ gott dæmi um ótrúlega burði íslenskrar tungu til að takast á við öll fyrirbæri sem á vegi hennar verða og hafa mörg undir.
3. Setningin hljóðar svo á frönsku: „L’architecture est le jeu savant, correct et magnifique des volumes assemblés sous la lumière.“ Pétur Ármannsson benti mér nýlega á að Hörður Ágústsson hafi þýtt setninguna svo að "húsagerðarlist" sé...Hugvitssamur, nákvæmur og glaðlegur leikurforma í Ijósi" : "Byggingarlist," Birtingur 6, nr. 3 (1960): 25. Stend ég þar á öxlum risa, þótt ég hafi ákveðið að haga þýðingunni öðruvísi. Kann ég Pétri kærar þakkir fyrir þessa ábendingu, svo og allar aðrar ábendingar.
4. „Ljós“ er ákjósanlegri þýðing á „lumière“ en „birta“ því það vitnar bæði í sköpunarsögu Biblíunnar („verði ljós“) og upplýsinguna, (fr. „Siècle des Lumières“) sem segja má að sé upphaf nútímaarkitektúrs í Evrópu um miðja átjándu öld. Ef til vill má segja að íslenska orðtakið að ákveðnir einstaklingar séu „helstu ljós“ einhvers tímabils vitni til þessarar hefðar, en síðan tölum við um að „leiða í ljós“ og að hlutir „komi í ljós.“
5. Það sem vakti athygli mína á þakköntunum í Norðurmýri er hin skemmtilega grein „Norðurmýrin: Íslenskur hversdagsfúnkís“ eftir Ágústu Kristófersdóttur í Lesbók Morgunblaðsins, 24. febrúar 2001. Ég styðst að öllu við þessa grein í mínum vangaveltum um bæði þakkantana og steininguna, og skálda eflaust eitthvað í eyðurnar. Sjá einnig: Pétur Ármannsson, Einar Sveinsson: arkitekt og húsameistari Reykjavíkur, 11.
ÞRJÚ ÁKÖLL TIL ARKITEKTA II
Eftirfarandi
texti er þýddur af undirrituðum úr einhverju frægasta riti
arkitektúrbókmennta tuttugustu aldarinnar, bókinni Vísi
að arkitektúr eftir
svissneska arkitektinn Le Corbusier, áhrifamesta arkitekt
módernismans.1 Enginn annar hlutgerði hræringar samtíma síns, en hafði um leið
jafn mikil áhrif á þann sama samtíma, eins og hann. Réttum
hundrað árum eftir að Vísir
að arkitektúr kom
út er enginn arkitekt rýndur og ræddur í sama mæli og Le
Corbusier, hvort sem það er af arkitektum, nemum, sagnfræðingum
eða almenningi. Reykjavík hefði litið öðruvísi út hefði hans
aldrei notið við. Hún væri hvorki betri né verri, heldur annars
konar, hvort sem litið er til útlits einstakra bygginga eða til
skipulags heilu hverfanna á höfuðborgarsvæðinu og víðar.
Vísi
að arkitektúr skrifar arkitekt sem hefur þegar á unga aldri, rétt rúmlega
þrjátíu ára, byggt nokkurn fjölda húsa sem eru þó gjörólík
þeim byggingum sem hann yrði síðar þekktur fyrir, fyrst í stíl
sem mætti nefna Júrastíl sem var bæði innblásinn af ensku Arts
and Crafts hreyfingunni og svæðinu í Sviss þar sem húsin voru
staðsett, í Júrakantónu í Sviss, en síðar í klassískari en
plastískari stíl sem var vísir að því sem koma skyldi. Le
Corbusier lét lítið fara fyrir þessum byggingum á síðum Vísis
að arkitektúr heldur byrjaði með autt blað og sótti í iðnaðarbyggingar og
farartæki samtímans, um leið og hann leitaði, skringilegt nokk,
bæði til fornaldar og endurreisnar. Le Corbusier skapaði með bók
sinni grundvöll fyrir tilvist eigin bygginga. Það er sjaldgæft
hjá arkitektum dagsins í dag, sem eiga erfitt með að stýra
umræðunni og eru umkomulausir gagnvart fjármagninu og þróunaröflum
samtímans.
Samtími
okkar hefur sem betur fer fengið nóg af karllægri hetjudýrkun og
það er ábyrgðarhluti að ýta undir hana eins og sumum kann að
finnast að þýðandi geri hér. Það að bók sé sögð
„áhrifamikil“ gerir hana það. Og daginn sem fólk hættir að
segja það, hættir hún að vera það. Það felst þó lærdómur
í að lesa rit sem þetta sem
slík. Þau
hjálpa okkur að skilja hvers vegna ýmsar ákvarðanir voru teknar
hér og þar í fortíðinni. Þau hjálpa okkur að skilja að
hugmyndir íslensks arkitekts á sjötta áratugnum,
svo dæmi sé tekið, spruttu ekki fram fullmótaðar í huganum á
henni, heldur voru þær innblásnar af lestri bóka eins Vísi
að arkitektúr,
eða undir áhrifum bygginga Le Corbusier, sem hlutgerðu kenningar
hans.
Le
Corbusier hefur kaflann um „yfirborðið,“ eina þriggja
„ábendinga til arkitekta“ (ábendingar númer eitt og þrjú
heita „rúmmyndin“ og „planið“), með því að prjóna við
fræga, en um leið sérviskulega, skilgreiningu sína á arkitektúr:
„Fyrst arkitektúr er haglegur, réttur og mikilfenglegur leikur
rúmmynda sem koma saman í ljósi, þá er verkefni arkitektsins að
gæða yfirborðin sem hjúpa rúmmyndirnar lífi, án þess að þau
verði sníklar sem gleypa í sig rúmmyndina sér til hagsbóta. Það
er sorgleg saga nútímans.“ Kryfjum þessa skilgreiningu til
mergjar.2
Fyrst
vitnar Le Corbusier í skilgreiningu sína á arkitektúr úr
kaflanum á undan: „Arkitektúr
er haglegur, réttur og mikilfenglegur leikur rúmmynda sem koma
saman í ljósi.“3
Með „haglegur“ meinar hann að arkitektúr er ekki bara nokkrar
spýtur sem klambrað er saman, heldur er hann settur saman af
hagleik þess sem hefur ekki bara gert það áður, heldur gerir það
eftir forskrift og vinnur sig þannig inn í hefð sem er lærð.
„Lærður“ er einmitt önnur möguleg þýðing á franska orðinu
„savant.“
Með
„réttur“ meinar hann að til sé rúmfræðilegur sannleikur sem
hinn lærði arkitekt getur nálgast, og því meira sem hann nálgist
hann, því „réttari“ verði hann. Hér er nýplatónismi Le
Corbusiers að verki. Við þurfum ekki að grípa til
heimspekisögunnar til að skilja hvað átt er við, enda hefði
hann aldrei sjálfur notað slík hugtök, heldur var (og er enn)
slíkur nýplatónismi bakaður inn í hugmyndir arkitekta um hluti
eins og hið rétta, „hreinleika,“ „einfaldleika,“
„heiðarleika“ o.s.frv. Hugsum okkur, til glöggvunar, bolla með
handfangi. Hversu stórt á handfangið að vera? Það getur
augljóslega ekki verið stærra en bollinn, því þá getur hann
ekki staðið án þess að velta fram fyrir sig, auk þess sem það
notar of mikinn leir, lítur skringilega út, o.s.frv. En það getur
heldur ekki verið of lítið, t.d. þannig að það sé varla hægt
að „fanga“ það með „hendinni“,
o.s.frv. Þannig að það hlýtur að vera einhversstaðar á milli
þess sem er of stórt og of lítið. Innan þessara marka getur
handfangið talist vera handfang. En jafnvel innan þessara marka
getur það verið „misrétt.“ Til dæmis gæti það verið
alveg við botn bollans og numið við borðið, þannig að sökum
vogarafls sé óþægilegt að drekka úr bollanum, hætta á að
maður gefi of mikið í og skvetti skaðbrennandi kaffi í augað á
sér. Því nær sem handfangið er efri brún bollans, því
þægilegra er að drekka úr honum—því „réttara“ er það.
Arkitektúr er þessi ónákvæmu vísindi hins rétta sem ekki er
hægt að reikna eða sanna nema með hagleik þess sem veit hvað er
rétt.
Með
„mikilfenglegur“ meinar Le Corbusier að ekki sé nóg að
hluturinn sé haglegur og réttur, hann þarf líka að vera
mikilfenglegur. Hann þarf að bera mikilfengleika sköpunarverksins
vitni, vera eins konar míkrókosmos sem ber hið stóra og
yfirskilvitlega í sér. Hér erum við aftur komin að nýplatónisma
Le Corbusiers og ef til vill er kominn tími á byrjendafyrirlestur í
nýplatónisma: Fyrir gríska heimspekingnum Platóni er hinn
veraldlegi heimur ófullkomin eftirmynd yfirskilvitlegra frummynda
sem eru þó raunverulegri en eftirlíkingarnar. Veraldlegur bolli er
ófullkomin námundun að hinum fullkomna, yfirskilvitlega bolla, sem
er þó einungis til sem frummynd og einungis hægt að nálgast
í hinum veraldlega heimi, en aldrei raungera. Því meir sem
veraldlegi bollinn nálgast hinn fullkomna bolla því mikilfenglegri
er hann, því hann nálgast hlutdeild í allífinu (á platónsku
tungumáli „tekur hann þátt í“ frummyndinni af bolla). Þetta
er það sem hljómar svo einkennilega: því einfaldari sem bollinn
er og því meira tillit sem hann tekur til náttúrulögmála
(varmataps, þyngdarafls, rúmfræði), því mikilfenglegri er hann.
Þess vegna elskaði Le Corbusier, rétt eins og aðrir módernistar,
hluti hannaða af handverksmönnum, verksmiðjuhannaða hluti og
byggingar hannaðar af verkfræðingum; fyrir þeim voru þessir
hlutir mikilfenglegir einmitt af því að þeir birtu hið
yfirskilvitnilega í einfaldleika sínum. Því meira skraut og
tildur, því meira fjarlægðust hlutirnir hið yfirskilvitnilega,
guð, zen, o.s.frv.
Læsileiki
rúmmyndarinnar er ofar öllu fyrir Le Corbusier, enda er rúmmyndin
fyrst en yfirborðið númer tvö í „þremur ábendingum til
arkitekta“. Hinar hreinu rúmmyndir – teningur, keila, pýramídi,
sívalningur og kúla – verða að fá að njóta sín; koma í
ljós.4 Öll deili hlutar (byggingar, bolla, klósettrúllu), yfirborðið
sjálft meðtalið, eiga síðan að ýta undir þennan læsileika
rúmmyndarinnar, en allt sem dreifir athyglinni frá henni er til
trafala. Þegar þú horfir á form átt þú að hugsa „kúla kúla
kúla“ eða „teningur teningur teningur“ eða „þríhyrningur
ofan á keilu ofan á sívalningi ofan á keilu ofan á kubbi“
(framhlið dórísks hofs). Dóríska hofið er uppáhalds forngríska
hofform Le Corbusiers, því þar fá rúmmyndir súlnanna að njóta
sín best. Við getum ímyndað okkur að kórinþískt hofform sé
honum síst að skapi, því þar vaxa rúmmyndirnar saman og
yfirflöturinn sem líkir eftir lótusplöntu tekur að „sníkja“
athygli augans „sér til hagsbóta.“
Áður
en við víkjum að þessum merkilega sníkli í lok þessarar fyrstu
setningar kaflans skulum við dvelja aðeins við rúmmyndina, þótt
hún sé ekki meginefni kaflans. Klassískt íslenskt dæmi um
byggingar þar sem deili arkitektúrsins ýta undir ásýnd
rúmmyndarinnar eru húsin í Norðurmýri, sem jafnframt var fyrsta
reykvíska hverfið til að byggja á hreinu rúðuskipulagi.
Upphaflega voru húsin hönnuð með hallandi þökum, en fljótlega
var horfið frá þeirri hönnun til að ná einni aukahæð með
lágmarksaukningu á byggingarefni. Það náðist aðeins að byggja
eitt slíkt hús, Karlagötu 14-16, eftir teikningum Einars
Sveinssonar og Valgeirs Björnssonar.
Fyrir
harðkjarnamódernistum hefði þetta þótt til happs. Hallandi þök
voru þeim ekki að skapi því þau drógu úr læsileika
rúmmyndarinnar. Þó varð fljótt ljóst að flöt þök á Íslandi
voru dýr lausn og því voru að lokum sett valmaþök með steyptum
þakkanti á húsin í Norðurmýri. Við fyrstu sýn kynni maður að
halda að þakkantur dragi athygli frá teningslaga rúmmyndum
húsanna, en þegar gengið er um hverfið sér ekki í þökin fyrir
þakköntunum, þannig að tilfinningin sem við fáum er að þökin
séu flöt. Á síðustu áratugum hafa þessir þakkantar verið að
springa í frosti svo þeir hafa verið fjarlægðir eða klæddir,
og því má nú ganga um hverfið og mæla þessi áhrif eftir því
hvort húsin hafa þakkant eða ekki (svo ekki sé minnst á að bera
saman Karlagötu 14-16 við hin húsin í hverfinu!).
Húsunum
í Norðurmýri var síðan fundin séríslensk lausn, steining, sem
kemur fram annars staðar á þessari síðu og verður saga hennar
ekki rakin til fullnustu hér. Þó má segja að steining hefði
verið Le Corbusier fullkomlega að skapi, því hún er heilsteypt
lausn á öllum fletinum sem hylur yfirborðið frá grunni til
rjáfurs en skapar ekki neins konar lárétta niðurdeilingu innan
þess eins og gert var ráð fyrir innan hinnar klassísku hefðar
(og reyndar örlar fyrir bæði á Karlagötu 14-16 og húsinu við
hliðina, Karlagötu 10-12, ásamt öðrum húsum teiknuðum af
Hafliða Jóhannssyni í hverfinu). Hún ýtir því undir læsileika
rúmmyndarinnar án þess að draga athygli að yfirborðinu, en er
um leið „mikilfengleg í ljósi.“ Að
auki var steining framkvæmd á frumstæðan hátt—þótt aðferðin
hafi krafist kunnáttu þá þurfti ekki menntaðan sérfæðing eða
handverksmann, heldur hvern sem var sem gat kastað skeljasandi og
náð þannig samfelldri
áferð.5
En
nú að „sníklinum“ sem „gleypir í sig rúmmyndina sér til
hagsbóta,“ en það er einmitt öfugt við það sem steiningin
gerir. Rúmmyndin og yfirborðið lifa samlífi í steinuðu húsi,
svo gripið sé til annars hugtaks úr menntaskólalíffræðinni.
Eins og við höfum áður lýst, ýtir steiningin undir læsileika
rúmmyndarinnar og gerir hana „haganlega, rétta og mikilfenglega“
án þess að draga of mikla athygli að sjálfri sér. „Sníkillinn“
er aftur á móti hver sú yfirborðsmeðhöndlun sem dreifir
athyglinni frá rúmmyndinni. Sníkillinn lifir á akademískum smekk
og borgaralegu tildri nítjándu aldarinnar, en þessari hugmynd
fylgir einnig hugleiðing um nútímann og fjöldaframleiðslu. Fyrir
Le Corbusier var nítjanda öldin gallaður nútími og í stað hans
vildi hann leita aftur til fornaldar þar sem form og yfirborð voru
úr einu og sama efninu; þess vegna þótti honum svona vænt um
Parþenonhof. Fyrir honum, eins og mörgum módernistum, var það
frumglæpur nútímans að skilja í sundur form og funksjón; þegar
bollar hættu að líta út eins og bollar, heldur fóru að líkjast
skeljum með snáka sem ófu sig í kring um þær, eða þess
háttar.
En
hvað er það sem sníkillinn sníkir? Hann sníkir athygli, hann
sníkir ljós, hann sníkir peninga. Tökum dæmi úr nútíma
Reykjavíkur. Nú rís hótel sem teygir sig yfir
það sem voru áður margar lóðir, en búið er að brjóta
bygginguna upp í marga fleti til að láta hótelið líta minna út
en það er. Í dag er þetta kallað að gera brjóta fletina niður
og gera þá „manneskjulegri.“ En í þessu tilfelli stendur
undirritaður með Le Corbusier og segir: Þessir fletir eru
sníkjudýr sem glepja athyglina frá því að þarna keypti eitt
þróunarfélag margar fallegar, gamlar byggingar í miðbæ
borgarinnar og jafnaði þær við jörðu. Í staðinn fyrir að þar
þrífist aðskilin starfsemi undir hverju og einu yfirborði þrífst
þar einungis hótelstarfsemi, þótt yfirborðið gefi annað í
skyn. Mætti ég þá frekar biðja um einn feitan steinaðan
kumbald.
1. LeCorbusier (fæddur 6. október 1887, dáinn 27. ágúst 1965) hét
réttu nafni Charles-Édouard Jeanneret. Textinn birtist fyrst árið
1920 sem sjálfstæð ritgerð í ritgerðaseríu í tímaritinu L'Esprit nouveau: revue internationale d’ esthétique (Nýr andi: Alþjóðlegt tímarit um fagurfræði), sem LeCorbusier stofnaði sjálfur ásamt málaranum Amédée Ozenfant.
2. „Rúmmynd“ er bein þýðing á orðinu „volume“ úr frönsku. Flestir þýðendur Le Corbusiers á indó-evrópskar tungur kjósa að þýða ekki orð af latneskum uppruna eins og „volume“ sem er að finna í dönsku, norsku og sænsku þýðingunum. Svo mörg orð í arkitektónískri umræðu (jafnvel orðskrípið „arkitektónísk“) eru annað hvort latnesk eða grísk að uppruna að íslenskur texti sem ekki innihéldi tilraunir til að þýða þau kæmi lesanda bókstaflega „spánskt fyrir sjónir.“ Því hefur þýðandi hér kosið að þýða öll orð sem ekki eru í almennu máli arkitekta, t.d. „volume,“ sem er meginefni kaflans á undan en sem spilar stórt hlutverk í kaflanum um yfirborðið. Að mati þýðanda þarf ekki mikið til að tileinka sér þýðingu á því orði, sem verður þjálla er líður á textann. Hins vegar hefur þýðandi kosið að halda sumum orðum af latneskum uppruna sem eru notuð í almennu máli arkitekta. Þar ber fyrst að nefna „arkitektúr“ og „arkitekt,“ en það færi önnur ritgerð í að gera grein fyrir ákvörðun þýðanda að nota gríska orðið „arkitektúr“ í stað „byggingarlistar.“ „Plan“ er annað orð sem þýðandi hefur ákveðið að halda í þótt margir arkitektar tali um „áætlun,“ „grunnmynd“ og „skipulag.“ Og það er einmitt ástæðan fyrir að þýðandi heldur orðinu „plan!“ Oft notar Le Corbusier orðið „plan“ til að fanga allar merkingarnar í einu. Það tæki því mikinn kraft úr kaflanum um „planið“ að þýða hann sem t.d. „grunnmyndin,“ og hefur því hefur „plan“ fengið að halda sér. Að lokum má nefna að „yfirborð“ er aftur á móti áreynslulaus og um leið þráðbein þýðing á franska orðinu „surface,“ sem er fengið af latneska orðinu „superficies;“ gott dæmi um ótrúlega burði íslenskrar tungu til að takast á við öll fyrirbæri sem á vegi hennar verða og hafa mörg undir.
3. Setningin hljóðar svo á frönsku: „L’architecture est le jeu savant, correct et magnifique des volumes assemblés sous la lumière.“ Pétur Ármannsson benti mér nýlega á að Hörður Ágústsson hafi þýtt setninguna svo að "húsagerðarlist" sé...Hugvitssamur, nákvæmur og glaðlegur leikurforma í Ijósi" : "Byggingarlist," Birtingur 6, nr. 3 (1960): 25. Stend ég þar á öxlum risa, þótt ég hafi ákveðið að haga þýðingunni öðruvísi. Kann ég Pétri kærar þakkir fyrir þessa ábendingu, svo og allar aðrar ábendingar.
4. „Ljós“ er ákjósanlegri þýðing á „lumière“ en „birta“ því það vitnar bæði í sköpunarsögu Biblíunnar („verði ljós“) og upplýsinguna, (fr. „Siècle des Lumières“) sem segja má að sé upphaf nútímaarkitektúrs í Evrópu um miðja átjándu öld. Ef til vill má segja að íslenska orðtakið að ákveðnir einstaklingar séu „helstu ljós“ einhvers tímabils vitni til þessarar hefðar, en síðan tölum við um að „leiða í ljós“ og að hlutir „komi í ljós.“
5. Það sem vakti athygli mína á þakköntunum í Norðurmýri er hin skemmtilega grein „Norðurmýrin: Íslenskur hversdagsfúnkís“ eftir Ágústu Kristófersdóttur í Lesbók Morgunblaðsins, 24. febrúar 2001. Ég styðst að öllu við þessa grein í mínum vangaveltum um bæði þakkantana og steininguna, og skálda eflaust eitthvað í eyðurnar. Sjá einnig: Pétur Ármannsson, Einar Sveinsson: arkitekt og húsameistari Reykjavíkur, 11.
ÞRJÚ ÁKÖLL TIL ARKITEKTA II
YFIRBORÐ ÓSKAR ARNÓRSSON
Le Corbusier í Róm 1921 (Fondation Le Corbusier) (t.v.)
Bókin Vísir að arkitektúr eftir Le Corbusier (t.h.)© F.L.C. / Adagp, Paris, 2020
Enginn annar hlutgerði hræringar
samtíma síns, og hafði jafn mikil áhrif
á þann sama samtíma, og Le Corbusier.
Villa Fallet frá 1905 og Villa Jeanneret Perret frá 1912 í Sviss eftir Le Corbusier
Vísi að arkitektúr skrifar arkitekt sem hefur þegar á unga aldri (...) byggt nokkurn fjölda húsa sem eru þó gjörólík þeim byggingum sem hann yrði síðar þekktur fyrir
Rúmmyndir teiknaðar af Le Corbusier
Dóríska hofið er uppáhalds forngríska
hofformið hans, af því þar fá rúmmyndir
súlnanna að njóta sín best.
„Arkitektúr er haglegur, réttur og
mikilfenglegur leikur rúmmynda í ljósi.“
Bollar (teikningar eftir greinarhöfund)
Arkitektúr er þessi ónákvæmu vísindi hins rétta sem ekki er
hægt að reikna eða sanna nema með hagleik þess sem veit hvað er
rétt.
Stóll nr.209M hannaður af Thonet bræðrum
Klassískar súlur, teikning eftir franska arkitektinn Claude Perrault frá 1683
Karlagata 14-16 (t.v.) og Mánagata 9-15 (t.h.)
Ljósmyndir: Pétur H. Ármannsson
Parþenonhofið í Aþenu